Fréttir
22.11.2019 Loksins Ber að neðan!
 
Fljótlega eftir stofnun Bers reyndum við að krækja í virtustu víngerð Suður Afríku, Thelema Mountain. Það gekk ekki þá, en nýlega tókust samningar á ProWein í Drusluþorpi [þ. Düsseldorf].
Víngarðurinn Thelema í hlíðum Simonsberg heitir eftir lúxus-klaustri/höll munksins, læknisins og rithöfundarins François Rabelais, Abbaye de Thélème, á Leirubökkum.
Lífsregla nunna og munka klaustursins var einföld: "Gerðu það sem þú vilt".


Vínin sem fást núna í Ríkinu eru
* Thelema Cabernet Sauvignon á 4.567. CS-vínin eru flaggskip víngerðarinnar.
* Thelema Shiraz á 3.789. Ekta nýjaheims-Shiraz, ávaxtaríkur og eikaður.
* Thelema Mountain rautt á 2.888,
sem er grunnvín Thelema, gert úr blöndu Rónar- og Bordóþrúgna. Ljúffengt og aðgengilegt vín. Með skrúftappa sem er það heitasta í dag - segir markaðsstjórinn.
* Sutherland Grenache Reserve á 4.888, kraftmikill bolti sem hentar kannski ekki öllum.

Fjölskyldan keypti víngarð í Elgin, nærri sjó sunnan við Höfðaborg, sem er svalara svæði en Stellenbosch og hentar því betur til ræktunar viðkvæmari þrúgna og gefur af sé léttari og frísklegri vín. Vínin þaðan fengu vörumerkið Sutherland. Aðalritara er ókunnugt um tengsl við þá feðga Donald og Kiefer.

Oft er vitnað í Rabelais, m.a.:
"Vín er það menningarlegasta í heiminum" og
"Aldrei hefur mikilmenni hatað gott vín".

Eins og sjá má er skjaldarmerki Thelema fuglinn Fönix.

 Veldu síðu: 1 2 3 4 5 6  Næsta síða  >>