Fréttir
21.11.2004 Ber tekur þátt í sýningunni Vín 2004
 
Helgina 20. og 21. nóvember var haldin vínsýning á vegum Vínbúða og Vínþjónasamtakanna.
Helztu léttvínsinnflytjendur tóku þátt í sýningunni, sem þótti takast vel. Þó voru sýnendur sammála um að gestir hefðu mátt vera fleiri.

Ber kynnti á sýningunni þau vín, sem tilnefnd voru í bæklinginn "Vínin með jólamatnum", sem gefinn er út af Vínbúðunum og var fyrst kynntur á sýningunni:

Castillo Perelada freyðivín
Fyrst var boðið upp á freyðivínin Castillo Perelada Brut Reserva og Seco. Flestum þóttu bæði vínin góð en til nokkurrar undrunar líkaði fleirum Brut, þ.e. þurrara vínið. Það þarf reyndar ekki að koma á óvart í ljósi þess að væntanlega eru það vanari vínáhugamenn sem koma á svona sýningu.

Champagne Jacquesson Cuvée 728
Næst var gestum boðið að smakka á kampavíninu Cuvée 728 og eiginleikar þess útskýrðir, því hér er á ferð sérstakt kampavín, sem gert með óvenjulegt markmið að leiðarljósi, þ.e. gæði umfram stöðugleika (e. Excellence before consistency). Öll stóru kampavínshúsin gera það sem í þeirra valdi stendur til að vínin séu sem líkust frá einu ári til annars. 68% af Cuvée er frá árinu 2000, sem var frábært í Kampi eins og víða í Frakklandi. Afgangurinn er frá fyrri árum. Cuvée táknar að ekki er notað pressuvín, aðeins sjálfrennandi. Þetta er því gæðavín og líkaði flestum sem á bergðu.

Þá var farið í rauðvínin:

Masia Perelada Tinto
Flestum líkaði þetta létta og ávaxtaríka vín.

Monte Don Lucío
Hér var komið að langþráðum klassískum, ef ekki gamaldags Spánverja með smá sveitalykt, mjúkum ávexti og þægilegri endingu (einhver sagði vaxborin eik).
Segja má að öll rauðvín, sem Ber hefur flutt inn til þessa, séu innilega óspænsk og því kannski kominn tími að einum af gamla skólanum frá La Mancha, heimaslóðum Dons Kíkóta.

Viñas del Vero Gran Vos
Gran Vos var stillt fram sem villibráðarvíni Bers, bæði í jólabælingnum og á sýningunni.
Dökkt, tilkomumikið vínið með sinn sterka persónuleika vakti talsverða hrifningu. Það var óborganlegt að heyra gesti stynja stundarhátt með Gran Vos á tungunni.
Almenn sátt var meðal gesta um að Gran Vos krefðist matar og þá sérstaklega villibráðar eða annarra bragðmikilla steika.


 Veldu síðu: <<  Til baka  78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88  Næsta síða  >>