Fréttir
29.07.2004 Pesquera Crianza valin beztu kaupin í ágústblaði Gestgjafans. Fékk fimm glös.
 
Pesquera Crianza var valin beztu kaupin í Vínbúðum í nýjasta tölublaði Gestgjafans. Vínið, sem er trúlega skærasta stjarna Ribera del Duero (sjá þó Vega Sicilia), fékk hæstu einkunn, fimm glös og frábæra dóma, m.a. þá að vera hlægilega ódýrt á Íslandi (sem staðfestir þá sögu að einn af vinum Bers hringdi úr matvörumarkaði á Spáni og kvartaði yfir verðinu á Pesquera í heimalandinu, hún væri ódýrari heima í Ríki).

Pesquera, sem hinn aldni dugnaðarforkur Alejandro Fernández hóf framleiðslu á fyrir rúmum 30 árum, þykir hafa sett héraðið Ribera del Duero á vínlandakort heimsins. Þegar hinn áhrifamikli en umdeildi vínpenni Robert Parker gaf Pesquera 100 stig af 100 mögulegum og líkti henni við dýrasta vín heims, sjálfan Petrus, varð allt vitlaust í Ribera del Duero. Frá 1980 til dagsins í dag hefur víngerðum í héraðinu fjölgað úr ~20 í rúmlega 150.

Úthlutun (lesist kvóti) ársins af Pesquera er nánast á þrotum. Því þykir rétt að benda á önnur blóðskyld vín:

Condado de Haza, eitt af yngri dekurbörnum Alejandros, er núna litli bróðir Pesquera en margir telja að hann eigi eftir að vaxa stóru systur yfir höfuð. Jörðin, sem Alejandro valdi til ræktunar Condado de Haza, er á norðurbökkum árinnar Duero og er af sumum talinn upprennandi Grand Cru garður héraðsins.

Teófilo Reyes er framleiddur af Reyes fjölskyldunni en höfuð hennar Teófilo sjálfur var víngerðarmaður Alejandros í árdaga og átti stóran þátt í tilurð og uppvexti stjörnunnar Pesquera.
Þegar Teófilo, menntaður víngerðarverkfræðingur frá frönskum háskóla, hætti störfum fyrir aldurs sakir stofnuðu synir hans víngerð, Bodegas Reyes (nema hvað?), og fengu þann gamla til liðs við sig.
Fyrsta árgerð Teófilo Reyes, 1994, náði þeim sérstaka árangri, fyrst spænskra vína, að teljast eitt 10 beztu vína heims samkvæmt bandaríska tímaritinu Wine Spectator.

Pesquera Gran Reserva, vandaðasta og dýrasta vín Alejandros, er aðeins framleitt í afburðaárferði (stöku sinnum eru þó gerðar nokkrar flöskur af hinu enn rándýrara Pesquera Janus) úr sérvöldum þrúgum af elzta vínviði. Vínið fær síðan klassíska spænska meðferð í amerískri eik.
Vínið hefur þungan dæmigerðan þroskaðan Ribera del Duero ilm af jarðvegi, dökkum berjum, plómum og súkkulaði. Það er mjög þétt í bragði en þó frísklegt, með mikil fyllingu sem smyr munninn eins og rjómi með keim af appelsínuberki. Hentar af vel með hreindýri, annarri villtri bráð og stórsteikum. Reyndist ofboðslega vel með villibráð í Perlunni.


 Veldu síðu: <<  Til baka  82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92  Næsta síða  >>